„Það hafa ekki átt sér stað neinar viðræður við þjálfara enn sem komið er. Það er nóg af nöfnum á borði okkar og við erum að vinna í málunum þó svo að við höfum ekki rætt við neinn ennþá,“ sagði Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, við Morgunblaðið þegar hann var spurður út í stöðuna á landsliðsþjálfaramálunum.
Sem kunnugt er lætur Ólafur Jóhannesson af störfum sem þjálfari karlalandsliðsins í næsta mánuði og er þess beðið með talsverðri eftirvæntingu hver verður eftirmaður hans.
Geir er staddur á Kýpur ásamt Þóri Hákonarsyni, framkvæmdastjóra KSÍ, en þar eru þeir á fundi formanna og framkvæmdastjóra knattspyrnusambanda í Evrópu.
„Það er fínt að nota tækifærið og ræða við forystumenn frá öðrum samböndum og spyrjast fyrir. Hér eru margir sem þekkja marga þjálfara og því góður vettvangur að fá upplýsingar,“ sagði Geir.