Í dag er stór stund hjá kvennaliði Þórs/KA í knattspyrnu en liðið spilar í dag sinn fyrsta Evrópuleik og það ekki á móti neinu smáliði. Norðankonur taka á móti þýska liðinu FFC Turbine Potsdam í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en þýska liðið er eitt það allra sterkasta í Evrópu. Liðið hefur orðið þýskur meistari síðustu þrjú árin. Það lék til úrslita í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð þar sem það tapaði fyrir franska liðinu Lyon en árið á undan hafði Potsdam betur á móti Lyon og vann Evrópumeistaratitilinn í annað sinn.
Valur mætti Potsdam í átta liða úrslitum UEFA-bikarsins árið 2005. Fyrri leiknum á Laugardalsvellinum lauk með 8:1-sigri þýska liðsins og seinni leikurinn í Þýskalandi endaði 11:1 fyrir Þjóðverjana.
Morgunblaðið sló á þráðinn til Örnu Sifjar Ásgrímsdóttur, leikmanns Þórs/KA, og spurði hana fyrst hvort hún og samherjar hennar væru ekki farnar að skjálfa á beinunum.
„Nei alls ekki. Við erum bara spenntar og ætlum að hafa gaman af þessu. Við vitum að Potsdam er með frábært lið og möguleikar okkar verða að teljast frekar litlir. Það er gaman að fá spreyta sig á móti þeim bestu og skemmtilegra en að spila við eitthvert miðlungslið. Við ætlum ekkert að pakka í vörn. Ég held að leikmenn Potsdam mæti mjög sigurvissir og verði með vanmat og við ætlum því að reyna að koma þeim svolítið á óvart með því að byrja að sækja,“ sagði Arna Sif.