Rúrik óhress með þjálfara OB

Rúrik Gíslason, til vinstri, í óvenjulegri stellingu í viðureign OB …
Rúrik Gíslason, til vinstri, í óvenjulegri stellingu í viðureign OB og Wisla Kraków í Evrópudeild UEFA. Reuters

Rúrik Gíslason, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður danska úrvalsdeildarliðsins OB, gagnrýnir þjálfara liðsins, Henrik Clausen, í viðtali við Tipsbladet í dag og segist ekki njóta sannmælis hjá honum þegar kemur að liðsvalinu.

Rúrik hefur ýmist verið í byrjunarliðinu eða á varamannabekknum hjá OB það sem af er þessu tímabili. Hann var í lengra sumarfríi en flestir aðrir vegna Evrópukeppni 21-árs landsliðanna og glímdi líka við ökklameiðsli á fyrstu vikum tímabilsins. Undanfarið hefur hann hinsvegar verið inn og útúr liðinu hjá Clausen.

Eftir að hafa verið í liðinu gegn Silkeborg í dönsku deildinni og gegn Wisla Kraków í Evrópudeild UEFA var Rúrik varamaður þegar OB mætti Horsens í deildakeppninni í síðustu viku.

„Mér fannst ég standa mig vel í þessum leikjum, en samt var ég settur á bekkinn. Ég er alltaf pirraður þegar ég spila ekki. Ég veit vel að ég kom seinna til leiks en hinir vegna Evrópukeppninnar og að meiðslin höfðu sitt að segja. En mér finnst að frammistaða mín skipti engu máli, hvort ég spili vel eða illa. Ég er alltaf settur aftur á bekkinn," sagði Rúrik í viðtalinu.

Hann er spurður hvort hann hafi láti óánægju sína í ljós við Clausen. "Já, það hef ég reyndar gert," svaraði Rúrik en vildi ekki segja frekar hvað þeim fór á milli.

„En mér finnst að hann eigi sína uppáhaldsleikmenn, og ef ég er ekki einn af þeim, verð ég að bregðast við því."

Hvernig, er Rúrik þá spurður: "Ég er 23 ára gamall og verð að spila eins mikið og mögulegt er til að halda áfram að taka framförum. Ef þjálfarinn er ekki hrifinn af þér, verður maður að fara eitthvert annað. Það verður að vera sanngjörn samkeppni um stöðurnar í liðinu."

Er það ekki þannig, er spurt: "Mér finnst það allavega ekki alltaf vera þannig. Ég er kominn í toppform á ný og finnst ég vera tilbúinn til að spila mikið. En ef Henrik er ekki sáttur við mig verður svo að vera. En ef ég væri þjálfarinn myndi ég alltaf stilla upp  besta liðinu.

Ég er atvinnumaður og legg hart að mér að vera í liðinu í hverjum leik. Ég vil taka það fram að ég vil ekki endilega komast í burt frá OB. Hér get ég orðið enn betri en málið er bara að ég verð að spila til að bæta mig. Ég fæ góðan stuðning frá áhorfendum hérna og vil helst ekki fara héðan, en ef ég fæ ekki að spila... En það eina sem ég vil er að spila leikina," segir Rúrik Gíslason sem er nú kominn til Portúgals og leikur þar með íslenska landsliðinu á föstudagskvöldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert