Íslenska U17 ára landslið stúlkna í knattspyrnu fagnaði 3:0 sigri gegn Kasakstan í öðrum leik sínum í undankeppni Evrópumótsins en riðillinn er spilaður í Austurríki. Ísland hefur þar með unnið báða leiki sína en íslensku stelpurnar höfðu betur á móti Austurríki á föstudaginn, 2:1.
Glódís Perla Viggósdóttir skoraði tvö fyrstu mörk íslenska liðsins og það þriðja skoraði varamaðurinn Eva Lind Elíasdóttir en staðan í hálfleik var 1:0.
Íslensku stelpurnar mæta Skotum í síðasta leik sínum sem fram fer á miðvikudag en Skotar höfðu betur gegn Kasakstan, 3:0, og mæta Austurríkismönnum síðar í dag.