Rúrik Gíslason og félagar hans í danska liðinu OB töpuðu illa á heimavelli í Evrópudeildinni í knattspyrnu í kvöld. OB tók á móti Twente frá Hollandi og tapaði, 4:1. Í sama riðli vann Wisla Kraká góðan sigur á Fulham, 1:0. Twente hefur 7 stig, Fulham 4 og OB og Wisla Kraká 3.
Rúrik hóf leik á varamannabekk OB en kom inná og lék síðustu sex mínútur leiksins.
Jóhann Berg Guðmundsson lék fyrstu 80 mínúturnar fyrir hollenska liðið AZ Alkmaar sem gerði 2:2 jafntefli við Austria Vín á heimavelli. AZ Alkmaar er í öðru sæti í sínum riðli með 5 stig en Metalist Kharkiv er efst með 7 stig.
Gríska liðið AEK tapaði í Rússlandi fyrir Lokomotiv Moskva og er AEK án stiga eftir þrjár umferðir. Eiður Smári Guðjohnsen er sem kunnugt er fótbrotinn en Elfar Freyr Helgason sat á varamannabekknum allan tímann.