Sundsvall lið Ara Freys Skúlasonar í sænsku 1. deildinni í knattspyrnu tryggði sér farseðilinn í efstu deild þar í landi þegar síðasta umferðin var leikin í dag. Þrátt fyrir að tapa fyrir Jönköpings Södra 2:1 dugði það liðinu til að hirða annað sætið. Ari skoraði eina mark Sundsvall í leiknum á 48. mínútu en hann spilaði allan leikinn.
Åtvidaberg vann deildina þrátt fyrir tap fyrir Davíð Þór Viðarssyni og félögum í Öster 1:0. Davíð Þór var í byrjunarliði Öster og spilaði allan leikinn á miðjunni. Tveimur stigum munaði á Åtvidaberg og Sundsvall en þar sem bæði lið töpuðu breyttist staðan ekki á toppnum. Öster endaði tímabilið í fjórða sæti.
Taugarnar fóru greinilega með toppliðin en Ängelholm, lið Heiðars Geirs Júlíussonar, var í þriðja sæti og hefði getað tryggt sér beint sæti í efstu deild en liðið tapaði einnig og það fyrir Hammerby. Ängelholm fer því í umspilsleiki um þriðja lausa sætið í efstu deild. Heiðar Geir var á varamannabekk liðsins í dag fram að 86. mínútu þegar honum var skipt inná.