Helgi Valur skoraði gegn meisturunum

Helgi Valur í baráttu við Arjen Robben.
Helgi Valur í baráttu við Arjen Robben. mbl.is/Golli

Helgi Valur Daníelsson skoraði mark AIK í 1:1 jafntefli við nýkrýnda meistara Helsingborgar í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Markið reyndist ansi mikilvægt.

AIK endaði í 2. sæti, fimm stigum á eftir Helsingborg, en hefði liðið ekki náð jafntefli í dag hefði það endað í 3. sæti á eftir Elfsborg, gamla félaginu hans Helga Vals.

Guðjón Pétur Lýðsson var á varamannabekknum hjá Helsingborg.

IFK Gautaborg, sem þeir Hjálmar Jónsson, Hjörtur Logi Valgarðsson og Theódór Elmar Bjarnason leika með, endaði í 7. sæti. Örebro, lið Eiðs Arons Sigurbjörnssonar endaði í 12. sæti og Gunnar Heiðar Þorvaldsson og félagar í Norrköping enduðu sæti neðar, sex stigum frá því að fara í umspil um sæti í deildinni.

Jónas Guðni Sævarsson og félagar í Halmstad hafa hins vegar fyrir löngu þurft að sætta sig við fall en liðið náði aðeins í 14 stig í umferðunum 30.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert