Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætti Norður-Írum í undankeppni Evrópumóts landsliða í Belfast í kvöld og hafði betur 2:0. Sigurinn var sannfærandi en Hólmfríður Magnúsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu mörk Íslands með tveggja mínútna millibili fyrir hlé. Íslendingar eru efstir í riðlinum með 13 stig eftir fimm leiki en N-Írar hafa 3 stig eftir tvo leiki. Fylgst var með gangi mála í leiknum hér á mbl.is.
Mark Hólmfríðar kom á 39. mínútu eftir hornspyrnu Dóru Maríu Lárusdóttur. Þvaga myndaðist í vítateig Norður-Íra og skaut Ólína G. Viðarsdóttir boltanum í Hólmfríði og þaðan í netið eftir því sem næst verður komist.
Mark Dagnýjar kom á 41. mínútu og var laglegt skallamark úr vítateignum eftir fyrirgjöf Hallberu Guðnýjar Gísladóttur frá vinstri.
Noregur vann í kvöld góðan útisigur á Belgíu 1:0 og þær norsku gera sitt besta til þess að halda í við íslenska liðið í toppbaráttu riðilsins.
Íslenska liðið bætti sig frá því í síðustu heimsókn til Belfast en þangað fór Ísland einnig í síðustu undankeppni. Þá vann Ísland 1:0 með marki frá Katrínu Ómarsdóttur sem kom á síðustu stundu.
Lið N-Írlands: Emma Higgins, Lyndsay Corry, Demi Vance, Nadane Coldwell, Julie Nelson, Ashley Hutton, Kenda McMullan, Rachel Furness, Sarah McFadden, Kristy McGuinness, Aoife Lennon.
Varamenn: Krystal Parker, Jessia Stephens, Laura Nicholas, Adele Gillespie, Simone Magill, Catherine O'Hagan, Kelly Bailie.
Lið Íslands: Þóra B. Helgadóttir - Ólína G. Viðarsdóttir, Sif Atladóttir, Katrín Jónsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir - Fanndís Friðriksdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Dóra María Lárusdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir - Margrét Lára Viðarsdóttir.
Varamenn: Guðbjörg Gunnarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Laufey Ólafsdóttir, Guðný Björk Óðinsdóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir, Þórunn Helga Jónsdóttir.