Norsku knattspyrnufélögin Stabæk og Vålerenga voru í dag sektuð um samtals tæpar 18 milljónir íslenskra króna fyrir samninga sín á milli í tengslum við kaup Vålerenga á Veigari Páli Gunnarssyni í ágúst.
Stabæk seldi Veigar til Vålerenga fyrir eina milljón norskra króna, tæplega 21 milljón islenskra króna, en samdi um leið við Vålerenga um að greiða 4 milljónir, rúmar 80 milljónir íslenskra króna, fyrir forkaupsrétt á 15 ára strák, Herman Stengel.
Stabæk ætlaði með þessu að komast hjá því að greiða Nancy í Frakklandi aðeins 500 þúsund norskar krónur, í stað 2,5 milljóna, en þegar Veigar sneri aftur til Stabæk eftir ársdvöl hjá Nancy fylgdi með í kaupunum að franska félagið fengi helminginn af kaupverði hans ef Stabæk seldi Veigar síðar.
Sérstök nefnd sem skipuð var í málið af norska knattspyrnusambandinu úrskurðaði í dag að Stabæk bæri að greiða 500 þúsund norskrar krónur í sekt, um 10,4 milljónir íslenskra króna, og Vålerenga 350 þúsund, eða um 7,3 milljónir íslenskra króna.
Þrír stjórnarmenn félaganna, Erik Loe formaður og Inge André Olsen, íþróttastjóri Stabæk, og Truls Haakonsen, íþróttastjóri Vålerenga, mega ekki koma að neinum málum innan norska knattspyrnusambandsins næstu 12-18 mánuði.