Þorsteinn Már Ragnarsson, knattspyrnumaður frá Grundarfirði og fyrirliði Víkinga í Ólafsvík, æfði í gær með norska félaginu Hönefoss sem leikur að öllum líkindum í efstu deild á næsta ári.
Morgunblaðið hafði samband við Þorstein í gær og sagði hann að forráðamenn félagsins vildu fá hann aftur til æfinga eftir hálfan mánuð en þá mun félagið skoða nokkra leikmenn.
Þorsteinn hefur dvalið í Noregi seinni hluta keppnistímabilsins og var lánaður frá Ólafsvíkingum til norska 2. deildar liðsins Raufoss. Þorsteinn er samningsbundinn Víkingi út næsta ár en hann hefur undanfarið verið orðaður við mörg úrvalsdeildarlið hér heima. Þau munu þá þurfa að kaupa kappann eða fá hann lánaðan.
Þorsteinn gerði lítið úr þessu og sagði rólegt vera í kringum þessi mál enn sem komið er. Hann væri fyrst og fremst að skoða hvort áframhaldandi tækifæri bjóðist á erlendri grund.
Hann hefur ekki ákveðið hvort hann tekur boði Hönefoss um að koma til liðsins í næsta mánuði en með liðinu leika Kristján Örn Sigurðsson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Í millitíðinni gæti Þorsteinn farið til æfinga hjá Falkenberg í Svíþjóð. Það er þó ekki komið á hreint en félagið hafnaði í 7. sæti í næstefstu deild í Svíþjóð.