Kristján Örn Sigurðsson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson, landsliðsmenn í knattspyrnu, urðu í dag meistarar í norsku B-deildinni þegar lið þeirra, Hönefoss, vann Löv-Ham á útivelli, 5:2, í lokaumferðinni.
Um leið gulltryggði Hönefoss sér sæti í úrvalsdeildinni en fyrir leikinn þurfti Sandefjord að vinna upp 14 marka mismun í markatölu, ef Hönefoss tapaði sínum leik. Sandefjord vann Atla Heimisson og félaga í Asker, 5:1, sem hefði dugað skammt.
Sandnes Ulf, sem var efst og komið upp fyrir lokaumferðina, tapaði 3:1 fyrir Bodö/Glimt á útivelli.
Hönefoss fékk því 57 stig og leikur á ný í úrvalsdeildinni á næsta ári. Liðið spilaði þar í fyrsta sinn árið 2010 en féll. Sandnes Ulf fékk 56 stig og verður í efstu deild á næsta ári í fyrsta sinn síðan 1940. Sandefjord fer síðan í umspil gegn þriðja neðsta liði úrvalsdeildar.
Kristján Örn og Arnór Sveinn léku að vanda í vörn Hönefoss í dag. Steinþór Freyr Þorsteinsson og Ingimundur Níels Óskarsson voru hinsvegar ekki með Sandnes í Bodö.
Tapið hjá Atla og félögum í Asker gegn Sandefjord varð þeim dýrkeypt. Asker, sem kom uppúr 2. deild í fyrra, virtist öruggt með sæti sitt í deildinni, en stór ósigur í Sandefjord, á sama tíma og Strömmen vann 6:2 sigur á Nybergsund á útivelli, varð til þess að Strömmen hélt sæti sínu í deildinni með því að fara uppfyrir Asker á markatölu. Atli lék fyrstu 50 mínúturnar með Asker en hann var að ljúka sínu þriðja tímabili með liðinu.