„Ég vonast eftir því að geta æft af fullum krafti með liðinu í desember og spilað með varaliðinu í lok desember eða fljótlega í janúar,“ sagði Bjarni Þór Viðarsson, knattspyrnumaður hjá Mechelen í Belgíu, við Morgunblaðið í gær.
Bjarni hefur ekkert leikið á yfirstandandi tímabili en hann fór í uppskurð á hné í ágúst. Upphaflega var gert ráð fyrir allt að sex mánaða fjarveru en Bjarni telur allar líkur á að hún verði heldur styttri.
Staða hans hjá félaginu er hinsvegar óviss.
„Mér líður vel hérna hjá Mechelen, þetta er flottur klúbbur, en þetta snýst allt um hvort maður spilar eða ekki. Fyrir mig væri besti kosturinn að þjálfarinn yrði rekinn, liðið er langt undir væntingum núna, hefur tapað sjö af síðustu níu leikjum en stefnan var sett á eitt af sex efstu sætunum. Ef ekkert gerist í þessu, vonast ég til að losna frá félaginu sem fyrst. Eftir svona meiðsli er það að sjálfsögðu ekki auðvelt, en það hlýtur einhver einhvers staðar að hafa trú á manni,“ sagði Bjarni Þór Viðarsson.
Nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.