Sócrates, sem var fyrirliði brasilíska knattspyrnulandsliðsins á HM á Spáni 1982, lést á sjúkrahúsi í Sao Paulo í nótt en hann hafði lengi glímt við veikindi.
Sócrates, sem er 57 ára gamall, var menntaður læknir en starfaði við sjónvarp og sem blaðamaður eftir að knattspyrnuferlinum lauk. Hann var ofdrykkjumaður og hefur oft verið lagður inn á sjúkrahús með innvortis blæðingar á undanförnum árum sem má rekja til drykkjunnar.
Sócrates, sem þótti snjall miðjumaður, lék með landsliði Brasilíu frá 1979 til 1986 og skoraði 22 mörk í 60 leikjum með því. Hann lék meðal annars með brasilísku liðunum Santos og Flamenco og þá lék hann eitt tímabil með Fiorentina á Ítalíu.