Lars Lagerbäck, nýráðinn landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, verður með æfingabúðir fyrir leikmenn á Norðurlöndum um miðjan næsta mánuð, dagana 12. til 14. janúar. Þær verða í Kórnum í Kópavogi.
Þetta staðfestir hann í samtali við vef norska félagsins Lilleström, www.lsk.no, en þrír íslenskir leikmenn hjá Lilleström hafa verið boðaðir í æfingabúðirnar. Það eru Stefán Logi Magnússon markvörður, Björn Bergmann Sigurðarson og Pálmi Rafn Pálmason.
„Við höfum farið yfir þá Íslendinga sem spila á Norðurlöndum og valið þá sem eru mest áhugaverðir. Allir þessir þrír leikmenn Lilleström hafa staðið sig vel og við viljum því fá þá í æfingabúðirnar," segir Lagerbäck, sem þarna hittir landsliðsmenn Íslands í fyrsta sinn.
„Ég vil hitta leikmennina og kynnast þeim. Þetta verða engar hörkuæfingar en farið yfir leikskipulag. Við munum síðast en ekki síst ræða hlutina, hvernig við munum vinna innan vallar sem utar," segir Svíinn ennfremur.
Stefán Logi og Björn Bergmann glíma við meiðsli en Lagerbäck vonast eftir þeim báðum. "Já, ég vona að allir þrír geti mætt, ég vil kynnast þeim og hefja samvinnuna. Það eru ekki æfingarnar sjálfar sem skipta mestu máli í þetta skipti," segir Lagerbäck.
Fyrsti landsleikur Íslands undir stjórn Lagerbäcks er gegn Svartfjallalandi 29. febrúar en þjóðirnar mætast þá í vináttulandsleik í Podgorica.