Birkir Bjarnason, fyrrverandi leikmaður norska knattspyrnuliðsins Viking frá Stafangri, hefur úr mörgum atvinnutilboðum að velja ef marka má ummæli umboðsmanns hans, Jims Solbakken hjá TV2 í Noregi. Samningur Birkis við Viking rann út í haust og segir Solbakken að hann sé meðal annars með tilboð frá liði í ensku B-deildinni.
„Birkir er með tilboð í höndunum frá mörgum félögum,“ segir umboðsmaðurinn og bætir við að þau séu frá Hollandi, Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Danmörku og Englandi.
„Núna er ég staddur í Þýskalandi að skoða nokkra hluti fyrir Birki,“ sagði Solbakken jafnframt.
Birkir, sem er 23 ára, á að baki níu landsleiki með A-landsliðinu og 25 leiki með U-21 árs liði Íslands þar sem hann hefur skorað þrjú mörk. Birkir var í eldlínunni með liðinu í sumar á lokamóti Evrópumótsins sem fram fór í Danmörku.