Ísland mætir Frökkum í maí

Sölvi Geir Ottesen í leik gegn Norðmönnum.
Sölvi Geir Ottesen í leik gegn Norðmönnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Frökkum í vináttulandsleik sem háður verður í Valenciennes í Frakklandi hinn 27. maí. Knattspyrnusambönd þjóðanna náðu samkomulagi um þetta og verður þetta 11. leikur þeirra á knattspyrnuvellinum.

Síðast mættust þjóðirnar í undankeppni EM árið 1999 en þá höfðu Frakkar betur, 3:2. Árið áður mættust þjóðirnar á Laugardalsvelli en þeim leik lyktaði með jafntefli, 1:1, en Frakkar voru þá ríkjandi heimsmeistarar eftir að hafa tryggt sér titilinn á heimavelli.

Íslendingar hafa aldrei farið með sigur af hólmi gegn Frökkum, þrisvar hafa leikar farið jafnt en franskir sigrar eru sjö talsins. 

Þessi leikur er hluti af lokaundirbúningi Frakka fyrir úrslitakeppni EM sem hefst 8. júní.  Frakkar leika þar í riðli með Englandi, Svíþjóð og Úkraínu og hefja leik gegn Englandi 11. júní í Donetsk.

Leikið verður á Stade du Hainut-vellinum í Valenciennes sem er nýr leikvangur, tekinn í notkun á síðasta ári. Völlurinn tekur um 25.000 manns í sæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert