José Mourinho þjálfari Real Madrid var að vonum ósáttur við að falla úr leik í spænsku bikarkeppninni í knattspyrnu í gærkvöldi og það fyrir erkifjendunum í Barcelona. Mourinho segir að sumir af hans leikmönnum trúi því að það sé ómögulegt fyrir þá að vinna sigur á Camp Nou.
Real Madrid réð ferðinni á stórum kafla í fyrri hálfleik en engu að síður höfðu Börsungar 2:0 yfir eftir fyrri hálfleikinn. Cristiano Ronaldo og Karim Benzema jöfnuðu metin fyrir Real Madrid um miðjan seinni hálfleik en fleiri urðu mörkin ekki og Barcelona vann einvígið samtals 4:3.
,,Við komum hingað með þeim tilgangi að komast áfram. Við vissum að það yrði erfitt en við mættum til leiks með því hugarfari. Hins vegar hef ég heyrt í búningsklefanum að það sé ómögulegt að vinna hérna. Ég hef verið með Chelsea, Inter og Real Madrid á þessum velli í nokkur skipti og þetta er ekkert nýtt,“ sagði Mourinho við fréttamenn eftir leikinn.
,,Ég vil óska Barcelona til hamingju fyrir það sem það gerði á Bernabeu í síðustu viku en ekki fyrir það að komast áfram,“ sagði Portúgalinn.