Norska knattspyrnufélagið Arna-Björnar vill fá Hólmfríði Magnúsdóttur, landsliðskonu, til liðs við sig seinnipartinn á þessu ári, eða eftir að keppni í bandarísku atvinnudeildinni lýkur síðsumars.
Hólmfríður, sem býr sig um þessar mundir undir sitt þriðja tímabil með Philadelphia Independence, fer til æfinga hjá norska liðinu í næstu viku og dvelur þar í fjóra daga.
Arna-Björnar er frá úthverfi í Bergen og hafnaði í fjórða sæti norsku úrvalsdeildinnar á síðasta keppnistímabili, fimm stigum á eftir meistaraliðinu Röa. Liðið hefur verið á sömu slóðum og endað í fjórða til fimmta sætinu samfellt undanfarin fimm ár.
„Norska liðið hefur verið í sambandi við mig undanfarin ár og ég ákvað að fara og skoða aðstæður þar. Ég get farið þangað, annaðhvort fyrir 1. september, eða strax og keppninni hér í Bandaríkjunum lýkur, sem gæti verið snemma í ágúst. Ég hef líka áhuga á að fara til Svíþjóðar og veit af áhuga hjá nokkrum liðum þar en ég skoða það seinna," sagði Hólmfríður við mbl.is í dag.
Hún lék með Kristianstad í Svíþjóð tímabilið 2009 en síðan með Philadelphia undanfarin tvö ár. Liðið hefur leikið til úrslita um bandaríska meistaratitilinn bæði árin. Hólmfríður fór reyndar til Vals áður en úrslitakeppnin hófst síðasta sumar og lék með Hlíðarendaliðinu út tímabilið.
Keppnistímabilið í Bandaríkjunum hefst í mars og lýkur í ágúst.