Keppni í bandarísku atvinnudeildinni í knattspyrnu kvenna hefur verið frestað um eitt ár en landsliðskonurnar Hólmfríður Magnúsdóttir og Katrín Ómarsdóttir voru búnar að semja þar við Philadelphia Independence. Hólmfríður átti að hefja sitt þriðja tímabil með liðinu núna í marsmánuði.
Stjórn deildarinnar staðfesti rétt í þessu að ákveðið hefði verið með atkvæðagreiðslu að fresta keppni í ár en stefna að því að taka upp þráðinn að nýju á næsta ári.
Dómsmál sem er í gangi er ástæðan fyrir því að keppninni er frestað. Dan Borislow, eigandi Washington Freedom, eða magicJack eins og liðið var endurnefnt á síðasta ári, kærði deildina í kjölfar þess að lið hans var rekið úr henni í lok október. Hann krafðist þess að liðið fengi sæti sitt á ný þar sem deildin hefði ekki staðið rétt að brottvikningunni og dómstóll í Flórída úrskurðaði honum í hag snemma í janúar.
Skömmu síðar var gerð málamiðlun þess efnis að lið magicJack myndi leika sýningarleiki gegn liðum deildarinnar næstu tvö árin en hún dugði greinilega skammt.
Talsmaður deildarinnar, Jennifer O'Sullivan, sagði í tilkynningu rétt í þessu að eigendur hennar hefðu ákveðið að fresta keppni frekar en að þurfa að vinna með Borislow á nýjan leik. Of mörg mál stæðu út af borðinu og þyrfti að leysa áður en hægt væri að halda áfram keppni.
Borislow keypti lið Washington Freedom fyrir síðasta tímabil, flutti það til Flórída og gaf því nýtt nafn, magicJack, eftir símafyrirtæki sem hann stofnaði. Lið magicJack fékk ýmiss konar sektir og refsingar á síðasta tímabili fyrir að fara ekki að reglum deildarinnar. Með liðinu leika margar knattspyrnukonur í fremstu röð, m.a. Abby Wambach, aðalmarkaskorari bandaríska landsliðsins.