Það er ekki á hverjum degi sem Lionel Messi, besti knattspyrnumaður heims er skúrkur á vellinum en það fékk hann að upplifa í kvöld. Hann gat komið liði sínu, Barcelona yfir gegn Valencia í fyrri undanúrslitaleik spænsku bikarkeppninnar þegar hann fékk tækifæri til að skora úr vítaspyrnu.
Diego Alves markvörður heimamanna varði hinsvegar spyrnuna frá Messi á 56. mínútu í stöðunni 1:1 og þar við sat. Valencia fer því með betri stöðu til Barcelona í seinni leikinn en útlit var fyrir en engu að síður verður verkefnið erfitt.
Jonas skoraði mark Valencia á 27. mínútu en Charles Puyol jafnaði metin fyrir Barcelona átta mínútum síðar.