Samþykkt var tillaga Leiknis R. og KB um fjölgun deilda á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla á 66. ársþingi KSÍ sem fram fer í dag. Það verður því leikið í fimm landsdeildum í stað fjögurra áður.
Fjórða efsta deildin sem áður var skipuð þeim liðum sem ekki voru í þremur efstu deildunum verður nú skipuð 10 liðum. Þá verða allir þeir aðilar sem ekki eiga lið í fjórum efstu deildunum með lið í fimmtu efstu deild.
Greinin fyrir breytingar; 33.1. Í Íslandsmóti meistaraflokks karla skal þátttakandi liðum skipt í 4 deildir, 0. deild skal skipuð 12 liðum, 1. deild 12 liðum, 2. deild 12 liðum og 3. deild skal skipuð þeim aðilum, sem ekki eiga lið i þremur efstu deildunum.
Grein 33.1 eftir breytingar; Í Íslandsmóti meistaraflokks karla skal þátttakandi liðum skipt í 5 deildir, 0. deild skal skipuð 12 liðum, 1. deild 12 liðum, 2. deild 12 liðum, 3 deild 10 liðum og 4. deild skal skipuð þeim aðilum, sem ekki eiga lið i fjórum efstu deildunum.
Í greinagerði sem fylgdi tillögu félaganna segir: Ýmsar ástæður eru fyrir tillögunni þar helst að getumunur á milli liða í núverandi 3.deild er mikill og tvö til fjögur neðstu lið riðilsins standa hinum yfirleitt langt að baki. Einnig er talsvert meiri utandeildar stimpill á mörgum liðum þarna og því möguleiki að byggja upp deild fyrir minni félög utan af landi sem styrkir þá starfið þeirra. Fall úr 2. deild karla verður ekki jafn mikið áfall og því líklegra að bæjarfélög utan af landi nái að taka þátt í alvörudeildarkeppni sem stendur ekki og fellur með einum leik yfir sumarið í úrslitakeppninni. Breiddin í íslenskum fótbolta ætti að aukast og hin nýja 4. deild yrði sennilega mun jafnari riðlakeppni en nú er.
Breytingar á leikbönnum
Þá var samþykkt breytingatillaga vegna tveggja ályktunartillaga, fjöldi spjalda og viðurlög og aðskilnaður spjalda á Íslandsmóti og bikarkeppni. Í því fellst að viðurlög vegna gulra spjalda verða nú sem hér segir:
Fjórar áminningar - bann í 1 leik
Sjö áminningar - bann í 1 leik
10 áminningar - bann í 1 leik
Þriðja hver áminning eftir það - bann í 1 leik.
Áður var grein 13.1.1 svo hljóðandi;
Fjórar áminningar - bann í 1 leik
Sex áminningar - bann í 1 leik
Átta áminningar - bann í 2 leiki
Tíu áminningar - bann í 2 leiki
Hver áminning eftir það - bann í 2 leiki.
Ekki verður gerður greinamunur á agaviðurlögum í Íslandsmóti og bikarkeppni eins og fram kom í annarri tillögunni.
Teknar voru til greina fleiri tillögur á ársþinginu sem má sjá með því að smella hér.