AZ er ein stór fjölskylda

Jóhann Berg fagnar marki fyrir AZ gegn Utrecht.
Jóhann Berg fagnar marki fyrir AZ gegn Utrecht. az.nl

Eftir vaska framgöngu hefur samningur Jóhanns Bergs Guðmundssonar við hollenska knattspyrnufélagið AZ Alkmaar verið framlengdur fram á mitt ár 2014. Félagið er mjög ánægt með leikmanninn og segir hann eiga bjarta framtíð fyrir höndum.

Jóhann Berg Guðmundsson þreytti frumraun sína hjá AZ á síðasta tímabili. Hann hefur leikið yfir 50 leiki fyrir félagið og þanið út netmöskvana átta sinnum fram að þessu. Honum gengur ekki alveg jafn vel að fóta sig í tungumálinu. „Ég skil allt en á auðveldara með að tjá mig á ensku,“ segir hann. „Talaðu hollensku!“ hrópar einn liðsfélaga hans stríðnislega. Jóhann lætur sér hins vegar hvergi bregða: „Haltu þér saman, ég er í viðtali!“

Frá blautu barnsbeini hefur Jóhann verið elskur að knattspyrnu. Fljótlega eftir að hann lærði að ganga var hann kominn út á völl. „Ég var fjögurra ára þegar ég gekk til liðs við Fylki í Árbænum.“ Þar með voru örlög hans ráðin. Átta ára lá leiðin í Breiðablik í Kópavoginum.

Jóhanni líður vel hjá AZ. „Leikmennirnir eru eins og ein stór fjölskylda.“ Hann kann líka að meta þjálfunina. „Við æfum fimm sinnum og leikum að meðaltali tvo leiki á viku.“ Frítíma sinn notar hann til að hvílast, leggur sig eða horfir á kvikmynd heima hjá sér. Meiri líkur eru á því að rekast á Jóhann á knattspyrnuvellinum en í eldhúsinu.

„Ég fer venjulega út að borða með einhverjum liðsfélaga.“ Ítalskur veitingastaður, La Terrazza, í strandbænum Bergen er í sérstöku uppáhaldi enda framreiðir vertinn sérstaklega Pasta Compollo alla Panna fyrir leikmenn AZ. Að sögn vertsins er það kjúklingaréttur með pasta og rjóma sem enginn fær að njóta nema leikmenn AZ Alkmaar. Jóhann snæðir líka reglulega í höfuðborginni Amsterdam með félaga sínum Kolbeini Sigþórssyni. „Við kynntumst í leikskóla og höfum verið góðir vinir síðan.“

Texti: Pieter Bliek

Höfundur er hollenskur blaðamaður.

Sjá nánar í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert