Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætti Evrópumeisturum Þýskalands í fyrsta leik sínum í Algarve-bikarnum í dag klukkan 14. Þýskaland hafði betur 1:0 með marki frá Anja Mittag sem leikur með Söru Björk Gunnarsdóttur og Þóru B. Helgadóttur hjá Malmö. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Byrjunarlið Íslands: Þóra B. Helgadóttir - Rakel Hönnudóttir, Mist Edvardsdóttir, Katrín Jónsdóttir fyrirliði, Hallbera Guðný Gísladóttir - Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Dóra María Lárusdóttir - Fanndís Friðriksdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir.
Byrjunarlið Þýskalands: Almut Schult (Bad Neuenahr) - Linda Bresonik (Duisburg), Annike Krahn (Duisburg), Josephine Henning (Wolfsburg), Babett Peter (Potsdam) - Viola Odebrecht (Potsdam), Lena Goessling (Wolfsburg) - Anja Mittag (Malmö), Celia Okoyino da Mbabi (Bad Neuenahr), Melaine Behringer (Frankfurt) - Alexandra Popp (Duisburg).
90. mín: Leiknum er lokið með 1:0 sigri Evrópumeistaranna frá Þýskalandi. Ísland mætir næst Svíþjóð á föstudaginn en Kína leikur einnig í riðlinum.
90. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Mbabi slapp ein á móti Þóru B. Helgadóttur sem stöðvaði hana með fætinum.
89. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Elísa Viðarsdóttir kom inn á fyrir Rakel Hönnudóttur og systurnar Elísa og Margrét Lára ná því að leika saman í fyrsta skipti fyrir A-landsliðið.
86. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Dóra María er farin af velli og í hennar stað kom Thelma Björk Einarsdóttir.
81. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Greta Mjöll Samúelsdóttir er komin inn á í stað Hólmfríðar Magnúsdóttur. Þjóðverjar skiptu Lotzen inn á fyrir Popp.
74. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Aukin harka er að færast í leikinn á lokakaflanum og það tók Hörpu Þorsteinsdóttur ekki nema liðlega mínútu að fá gult spjald.
74. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Þriðja breytingin á íslenska liðinu. Guðný Björk Óðinsdóttir sem var tæp í baki fyrir leikinn kemur inn á fyrir Hallberu. Nota má fleiri skiptingar í Algarve-bikarnum en í stórkeppnum eins og EM og HM.
73. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Sigurður Ragnar notar aðra innáskiptingu: Harpa Þorsteinsdóttir leysir Fanndísi Friðriksdóttur af hólmi.
70. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Sara Björk fær fyrsta gula spjald Íslands í leiknum.
66. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland sem gerði tvær breytingar á liði sínu. Mittag og Goessling fóru út af en inn á komu Huth og Bartusiak.
64. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Fyrsta skiptingin í leiknum. Katrín Ómarsdóttir er komin inn á fyrir Gunnhildi Yrsu.
62. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Mittag reyndi skot sem varnarmaður Íslands varði í horn.
58. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Hólmfríður var nálægt því að sleppa í gegn en varnarmaður Þýskalands var skrefinu á undan.
56. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Fyrirliði Þjóðverja var nálægt því að sleppa í gegnum vörn Íslands en Rakel bjargaði málunum á síðustu stundu.
55. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Síðari hálfleikurinn fer rólega af stað. Varamenn Ísland eru farnir að hita upp.
45. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland að loknum fyrri hálfleik. Miðað við getu andstæðingsins er þetta ekki slæm staða þó aldrei sé eftirsóknarvert að vera undir í knattspyrnuleik.
45. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Íslenska liðið átti góða sókn undir lok fyrri hálfleiks. Margrét Lára átti í kjölfarið hættulega hornspyrnu sem hafnaði í slánni á marki Þýskalands.
39. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Popp heimtaði vítaspyrnu þegar skot hennar hafnaði í þéttum varnarvegg Íslands samkvæmt skrifum hjá þýska knattspyrnusambandinu. Þýðingarforrit Google skilaði mér hins vegar þessari niðurstöðu sem mér finnst mun skemmtilegri: Popp krafa handbolta eftir skot er læst með svæði dráttarvaxta á þéttbýlasta Íslands!!!!
37. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Mbabi skaut framhjá íslenska markinu úr ágætu færi í vítateignum.
30. mín: Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Þær þýsku hafa náð ágætum tökum á leiknum en íslenska liðið leikur af varfærni enn sem komið er.
25. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Þýskaland. Evrópumeistararnir hafa tekið forystuna. Anja Mittag samherji Þóru og Söru skoraði hjá Þóru af markteig eftir fyrirgjöf Behringer frá vinstri.
20. mín: Staðan er 0:0. Bæði liðin hafa átt markskot framhjá markinu. Fanndís var nálægt því að sleppa inn fyrir vörn Þjóðverja eftir langt útspark Þóru en skottilraun Fanndísar var misheppnuð.
13. mín: Staðan er 0:0. Anja Mittag átti sláarskot á 13. mínútu en Ísland slapp með skrekkinn.
1. mín: Staðan er 0:0. Leikurinn er hafinn.
0. mín: Áhugaverð uppákoma virðist hafa átt sér stað fyrir leikinn þegar fjórði dómari leiksins heimtaði að leikmenn liðanna myndu klippa á sér neglurnar. Hugsanlega er það í tilefni hlaupaársdagsins en samkvæmt KSÍ mun þetta vera siður í knattspyrnuleikjum í heimalandi fjórða dómarans, Singapore. Þar kemur jafnframt fram að málið hafi verið leyst sem þýðir þá væntanlega að íslensku landsliðskonurnar hafi ekki þurft að fórna nöglunum.
0. mín: Katrín Ásbjörnsdóttir er ekki á leikskýrslu vegna meiðsla.
0. mín: Viola Odebrecht fyrrverandi leikmaður Vals er í byrjunarliði Þjóðverja.
0. mín: Ísland fór alla leið í úrslit Algarve-bikarsins fyrir ári síðan en tapaði þar fyrir Bandaríkjunum 2:4. Katrín Ómarsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir skoruðu fyrir Ísland.
0. mín: Aðstæður á leikstað munu vera góðar og veðrið eins og best verður á kosið.
0. mín: Ísland saknar margra sterkra leikmanna á Algarve að þessu sinni. Edda Garðarsdóttir, Sif Atladóttir, Laufey Ólafsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir eru meiddar og Ólína G. Viðarsdóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir eru í barneignarfríi.
0. mín: Liðin mættust síðast í lokakeppni EM í Finnlandi árið 2009. Þýskaland hafði þá betur 1:0 og vann einnig keppnina.