Svartfjallaland sigraði Ísland, 2:1, í vináttulandsleik í knattspyrnu í Podgorica, höfuðborg Svartfjallalands í dag. Stevan Jovetic tryggði Svartfellingum sigur með marki á 88. mínútu en hann gerði bæði mörk heimamanna í leiknum.
Jovetic kom Svartfellingum yfir á 56. mínútu. Alfreð Finnbogason jafnaði á 79. mínútu, nýkominn inná sem varamaður, og strax í næstu sókn átti hann dauðafæri en skaut í þverslána og niður.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
90+3 Íslenska liðið átti ekki svar á lokamínútunum. Svartfellingar héldu boltanum að mestu eftir markið og sigurinn er þeirra. Leik lokið.
89. Snögg sókn Svartfellinga og skot frá Vucinic en Stefán ver auðveldlega.
88. MARK - 2:1. Glæsilegt skot Stevan Jovetic af 20 m færi, efst í markhornið hægra megin.
86. Dauðafæri heimamanna. Delibasic lyftir boltanum yfir af markteig eftir frábæran undirbúning hjá Vucinic.
84. Jovetic með hörkuskot af 20 m færi og Stefán Logi ver vel.
82. Jóhann Berg í fínu skotfæri rétt utan vítateigs, hörkuskot og Bosovic ver í markhorninu niðri. Íslenska liðið er nú til alls líklegt.
81. DAUÐAFÆRI!! Gylfi Þór Sigurðsson fær boltann innvið markteig, er þar einn gegn markmanni en í þröngu færi. Rennir út á Alfreð sem er í dauðafæri við markteig og lyftir boltanum í hægra hornið, í þverslána og niður!! Jóhann Berg fylgir á eftir, í dauðafæri á markteig, en skýtur yfir!!
79. MARK - 1:1. Alfreð Finnbogason er ekki lengi að þessu. Aron Einar Gunnarsson á flotta sendingu inníá milli varnarmanna, Alfreð sleppur inní vítateiginn hægra megin, platar varnarmann og sendir boltann með vinstri yfir í vinstra markhornið!
77. Indriði Sigurðsson kemur inná fyrir Sölva Geir Ottesen og tekur við fyrirliðabandinu af honum. Indriði er leikjahæstur í liðinu í dag og spilar sinn 62. landsleik.
74. Alfreð Finnbogason kemur inná fyrir Birki Bjarnason. Óþreyttur framherji inná.
73. Svartfellingar eru með nokkuð góð tök á leiknum sem stendur og íslenska liðið er ekki eins kraftmikið eftir því sem liðið hefur á leikinn.
70. Mirko Vucinic með ágætt skot rétt utan vítateigs en rétt framhjá íslenska markinu.
66. GULT - Milan Jovanovic brýtur illa á Rúrik og fær gula spjaldið.
66. Aron Einar Gunnarsson kemur inná fyrir Kára Árnason.
62. Gylfi Þór Sigurðsson reynir skot úr aukaspyrnu af 25 m færi en auðvelt fyrir Bosovic í markinu.
60. Birkir Már Sævarsson kemur inná fyrir Grétar Rafn Steinsson og Hjörtur Logi Valgarðsson fyrir Bjarna Ólaf Eiríksson. Skipt um bakverði.
56. MARK - 1:0. Einfalt var það. Skyndisókn, fyrirgjöf frá vinstri, og Stevan Jovetic er mættur innundir markteig og skallar boltann af öryggi í íslenska markið. Þetta kemur uppúr vænlegri stöðu Íslands, aukaspyrnu sem ekkert verður úr og snöggri sókn í kjölfarið.
54. Jóhann Berg með rispu fram völlinn og skora af um 25 m færi en vel yfir mark Svartfellinga.
53. Hörkuskot frá Rúrik af 25 m færi, hægra megin, og boltinn svífur rétt framhjá stönginni fjær.
52. GULT. Varnarmaður Svartfellinga, Kosovic, fær gula spjaldið fyrir að hanga í Grétari Rafni sem var á fullri ferð upp hægri kantinn.
49. Birkir Bjarnason með hörkuskot frá vítateig og Bosovic ver, heldur ekki boltanum en gómar hann síðan.
46. Dauðafæri Svartfellinga. Marko Cetkovic, nýkominn inná, og skýtur í þverslána og yfir.
46. Seinni hálfleikur er hafinn.
46. Jóhann Berg Guðmundsson kemur inná fyrir Emil Hallfreðsson og er vinstra megin á miðjunni.
45. Hálfleikur og staðan er 0:0. Leikurinn er í jafnvægi í heildina en íslenska liðið hefur verið áræðið og kraftmikið, pressað mótherjana margsinnis framarlega og fengið ágæt færi til að skora.
43. Dauðafæri Íslands. Emil reynir skot af um 25 m færi, boltinn fer í varnarmann og innfyrir vörnina þar sem Birkir Bjarnason stingur sér framhjá mótherjunum, tekur boltann viðstöðulaust á lofti en rétt framhjá markinu.
41. Bosovic markvörður bjargar sér naumlega út úr mikilli pressu íslenska liðsins í vítateig Svartfellinga. Tefldi á tæpasta vað og Ísland nær boltanum og heldur áfram að sækja.
40. Damjanovic sleppur inní vítateiginn eftir innkast, með talsvert pláss rétt innan vinstra vítateigshorns en skotið er algjörlega misheppnað og skapar enga hættu..
37. Tvær hornspyrnur Svartfellinga í röð en Íslendingar skalla frá í bæði skiptin.
36. Fínt færi Íslands. Gylfi Þór með aukaspyrnu frá vinstri kanti og Birkir Bjarnason skallar boltann aftur fyrir sig frá vítapunkti, og rétt framhjá markinu. Sölvi Geir virtist keyrður niður í teignum í leiðinni.
35. Stefán Logi ver úr þokkalegu færi vinstra megin í vítateignum, skot frá Sartovic.
30. Hálftími liðinn og allt í járnum.
27. Grétar Rafn þarf aðhlynningu eftir árekstur við Eggert félaga sinn en virðist vera í lagi.
26. Stevan Jovetic reynir að lyfta boltanum yfir Stefán í markinu, rétt utan vítateigs, en Stefán er með allt á hreinu og boltinn dettur yfir þverslána.
21. Fín aukaspyrna frá Gylfa inná markteiginn þar sem fjórir Íslendingar eru nærri því að komast í boltann. Kári fær hann á bringuna en hann hrekkur rétt framhjá markinu. Mikill ákafi í íslenska liðinu.
21. Hörkupressa áfram hjá íslenska liðinu og vörn og markvörður heimamanna í vandræðum. Aukaspyrna hægra megin eftir brot á Rúrik.
18. "Mjög hressandi að sjá íslenskt lið pressa svona framarlega á vellinum," segir Kristján Guðmundsson þjálfari Vals sem tekur þátt í lýsingunni á Sport TV.
17. Emil með skot af um 30 m færi, fín tilraun, rétt framhjá stönginni hægra megin.
16. Sölvi Geir með skalla eftir gríðarlangt innkast Kára Árnasonar frá hægri, en framhjá markinu.
16. Hornspyrna frá Gylfa, frá hægri, en Svartfellingar ná að skalla frá.
15. Stefan Savic, leikmaður Manchester City, reynir skot af 30 m færi en yfir íslenska markið.
10. Mjög gott færi hjá Stevan Jovetic í vítateignum eftir skyndisókn Svartfellinga en hann er lengi að athafna sig og Stefán Logi ver skot hans vel.
8. Simen Vukcevic með annað skot að marki Íslands, rétt utan vítateigs, en hættulaust og framhjá markinu.
5. Brotið á Rúrik á miðjum vallarhelmingi Svartfellinga og aukaspyrna á ágætum stað. Sending inní teiginn, litlu munar að Birkir Bjarnason nái í boltann og hann telur að brotið sé á sér. Ekkert dæmt.
4. Simen Vukcevic, leikmaður Blackburn, á fyrsta markskotið, frá vítateig eftir að Sölvi Geir skallar frá marki, en langt framhjá.
3. Íslenska liðið pressar all framarlega og Svartfellingar eru í vandræðum á eigin vallarhelmingi.
17.03 - Leikurinn er hafinn.
17.01 - Þjóðsöngvarnir hafa verið leiknir og leikurinn er að hefjast.
16.56 - Liðin ganga inná völlinn og Sölvi Geir Ottesen fyrirliði fer fyrir íslenska liðinu.
16.45 - Þetta er í fyrsta skipti sem Svartfjallaland og Ísland mætast í landsleik. Íslendingum var boðið að verða fyrstu mótherjar Svartfellinga í mars 2007, þegar þeir voru nýlega orðin sjálfstæð þjóð, en KSÍ hafnaði boðinu.
Lið Íslands: Stefán Logi Magnússon - Grétar Rafn Steinsson, Sölvi Geir Ottesen fyrirliði, Ragnar Sigurðsson, Bjarni Ólafur Eiríksson - Rúrik Gíslason, Kári Árnason, Eggert G. Jónsson, Emil Hallfreðsson - Birkir Bjarnason, Gylfi Þór Sigurðsson.
Varamenn: Haraldur Björnsson, Birkir Már Sævarsson, Indriði Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Hjörtur Logi Valgarðsson, Aron Einar Gunnarsson, Alfreð Finnbogason, Pálmi Rafn Pálmason.