Tveir enskir knattspyrnustjórar vöktu á dögunum athygli á sívaxandi vandamáli í fótboltanum, þeir Brendan Rodgers hjá Swansea City og David Moyes hjá Everton. Í viðtölum við þá báða í breskum fjölmiðlum kom fram að þeir legðu mikla áherslu á það við sína leikmenn að þeir „stæðu í lappirnar“.
Leikaraskapurinn, sem tröllríður fótboltanum um þessar mundir, þar sem menn detta hver um annan þveran af minnsta tilefni, er einfaldlega ekki leyfður í herbúðum Swansea og Everton.
Ég reikna ekki með því að leikmenn eða forráðamenn í Englandi lesi Moggann daglega en vil hins vegar nota tækifærið og skora á íslenska knattspyrnuforystu að beita sér fyrir alvöru í þessu máli á komandi keppnistímabili. Ekki síður þjálfarana, sem ættu að stíga fram eins og þeir Rodgers og Moyes og lýsa yfir andúð sinni og banna leikaraskapinn í sínum röðum.
Hver verður fyrsti íslenski þjálfarinn til að lýsa því opinberlega yfir að leikaraskapur verði ekki liðinn í sínum hópi? Hann má hringja í mig strax!
Viðhorfsgreinina í heild er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.