Eyjólfur Héðinsson gerði sigurmark SönderjyskE í 2:1 sigri liðsins á AaB í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Eyjólfur og félagar, sem eru í fallbaráttu, voru á útivelli á móti AaB frá Álaborg sem er í baráttunni um sæti í Evrópukeppninni. Gestirnir komust yfir í fyrri hálfleik en heimamenn jöfnuðu. Eyjólfur gerði síðan sigurmarkið rúmum tíu mínútum fyrir leikslok og færðist liðið nokkuð frá fallsvæðinu með sigrinum.
Eyjólfur lék allan leikinn á miðjunni með SönderjyskE og Hallgrímur Jónasson í vörn liðsins. Arnar Darri Pétursson markvörður var hinsvegar ekki í leikmannahópnum.