Ronaldo setti met og Messi jafnaði það

Lionel Messi fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Lionel Messi fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Reuters

Cristiano Ronaldo setti nýtt markamet í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld og Lionel Messi jafnaði það tveimur klukkutímum síðar þegar Real Madrid og Barcelona unnu leiki sína í deildinni - bæði eftir að hafa lent undir.

Real Madrid vann Sporting Gion á Santiago Bernabéu, 3:1, eftir að hafa verið 0:1 undir um tíma þegar Miguel de las Cuevas skoraði úr vítaspyrnu. Gonzalo Higuain jafnaði metin, Ronaldo kom Real yfir og Karim Benzema innsiglaði sigurinn.

Markið hjá Ronaldo var hans 41. í deildinni og þar með setti hann nýtt markamet. Alls hefur Portúgalinn nú skorað 53 mörk á tímabilinu og jafnaði með því eigið met á því sviði.

Tveimur stundum síðar hófst viðureign Levante og Barcelona og þar var Levante yfir í hálfleik, 1:0. Lionel Messi jafnaði metin á 64. mínútu og skoraði svo sigurmark Barcelona, 2:1, á 72. mínútu, úr vítaspyrnu. Þar með var Messi kominn með 41 mark í deildinni í vetur og búinn að jafna nýja metið hans Ronaldos!

Messi er þá kominn með 63 mörk samtals á tímabilinu og nálgast óðum Evrópumetið hjá Gerd Müller sem skoraði 67 mörk fyrir Bayern München veturinn 1972-73.

Og meira af tölum því fyrra markið hjá Messi var hans 200. mark undir stjórn Peps Guardiola, þjálfara Barcelona.

Staðan í deildinni er þá óbreytt því Real Madrid er með 85 stig og Barcelona 81 þegar fimm umferðum er ólokið í deildinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert