„Ég fór í Ajax til að vinna titla. Nú er einn kominn og það munu örugglega fleiri koma. Þetta var frábær tilfinning,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson, framherjinn skæði, við Morgunblaðið en á dögunum fagnaði hann hollenska meistaratitlinum með Ajax í Amsterdam.
Ajax varð þá meistari í 31. skipti og náði að verja titlinn í fyrsta skipti í sextán ár en félagið varð líka meistari á síðasta tímabili.
Kolbeinn, sem er 22 ára gamall, gekk í raðir hollenska stórliðsins síðastliðið sumar frá AZ Alkmaar en Ajax greiddi 4,5 milljónir evra fyrir íslenska landsliðsmanninn, jafnvirði 735 milljóna íslenskra króna.
Kolbeinn hóf tímabilið hreint frábærlega. Hann skoraði 5 mörk í fyrstu fimm leikjum sínum með liðinu en í október varð hann fyrir því óláni að fótbrotna og var frá keppni þar til í byrjun apríl. Kolbeinn endaði tímabilið vel og skoraði tvö mörk í lokaumferðunum en gat þó ekki verið með liðinu í lokaumferðinni þegar það fagnaði sigri gegn Vitesse.
Sjá nánar samtal við Kolbein í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.