Íslenska drengjalandsliðið í knattspyrnu var aðeins sex mínútum frá því að komast í undanúrslitin á Evrópumótinu í Slóveníu en þeir eru úr leik eftir ósigur gegn Georgíu í kvöld, 0:1, í lokaumferð riðlakeppninnar.
Georgíumenn skoruðu sigurmark sitt sex mínútum fyrir leikslok og tryggðu sér með því annað sætið í riðlinum og sæti í undanúrslitum. Á meðan töpuðu Frakkar 0:3 fyrir Þjóðverjum þannig að íslenska liðinu hefði dugað jafntefli til að vera fyrir ofan bæði Georgíu og Frakkland á markatölu.
Þjóðverjar fengu 9 stig, Georgíumenn 4, Frakkar 2 og Íslendingar 1 og íslenska liðið hafnaði því í 7.-8. sæti á mótinu.
Þýskaland mætir Póllandi og Georgía mætir Hollandi í undanúrslitunum um Evrópumeistaratitilinn á sunnudaginn.