Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, sagði á blaðamannafundi í dag að hann hefði ákveðið að velja ekki Eið Smára Guðjohnsen í leikina gegn Frakklandi og Svíþjóð í lok þessa mánaðar.
Eiður hefði verið lengi frá vegna meiðsla og hann hefði talið betra að sleppa honum að þessu sinni. Hann ætlaði hinsvegar að hitta Eið í sumar og sjá til hvar hann muni spila á næsta tímabili og sjá hver staðan á honum yrði fyrir vináttulandsleikinn gegn Færeyjum í ágúst.
Lagerbäck fór yfir það á fundinum hvaða leikmenn hefði ekki verið hægt að fá í leikina gegn Frökkum og Svíum, sem fara fram 27. og 30. maí. Grétar Rafn Steinsson og Skúli Jón Friðgeirsson eru frá vegna meiðsla, Emil Hallfreðsson og Arnór Smárason verða enn á fullri ferð með sínum liðum. Lagerbäck kvaðst reyndar vona að Emil og félagar í Verona færu beint upp í ítölsku A-deildina en sín tilfinning væri sú að þeir yrðu í umspili á sama tíma og landsleikirnir fara fram.
Þá var ekki hægt að velja leikmenn frá norsku liðunum í leikinn gegn Frökkum, þar sem heil umferð er spiluð í Noregi 28. og 29. maí. Hann hefði samt ákveðið að fá fjóra leikmenn þaðan í leikinn gegn Svíum 30. maí.
Lagerbäck sagði jafnframt áhugavert að skoða hvaðan leikmenn íslensku liðanna koma og mikilvægt væri að fá sem flesta í sem sterkastar deildir og sem stærst félög.