„Það er ekki gaman að tapa aftur 3:2 en svona er þetta bara og ég held að það hafi verið margt jákvætt í okkar leik í kvöld," sagði Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu við mbl.is eftir ósigurinn gegn Svíum í Gautaborg.
„Ég er tiltölulega sáttur við okkar leik, sérstaklega í seinni hálfleiknum þar sem við náðum að halda boltanum ágætlega, mun betur en gegn Frökkunum. Þetta var annars allt öðruvísi leikur en á sunnudaginn, Frakkarnir eru með mun tekískara lið en Svíarnir með mun líkamlega sterkara. Það er ekki gott að hafa fengið á sig sex mörk gegn þessum tveimur liðum, en við skoruðum fjögur og megum ekki gleyma því að þau eru geysisterk og bæði á leiðinni á EM," sagði Aron.
Hann sagðist ánægður með þróun mála hjá íslenska liðinu undanfarið. „Það hafa orðið áherslubreytingar í okkar leik og ég vona að við spilum skemmtilegri fótbolta en áður. Það er margt að gerast hjá okkur og við tökum vonandi það besta úr þessum leikjum með okkur inní undankeppni HM í haust. Það skiptir mestu máli," sagði Aron.
Aðspurður sagði hann ekki stórt vandamál að laga sig að nýrri leikaðferð hjá Lars Lagerbäck, 4-4-2. „Nei, nei, við höfum allir spilað þannig með okkar félagsliðum og kunnum það vel."
Aron tók undir að tvö markanna í kvöld hefðu verið mjög ódýr. „Já, þau voru það og við megum ekki tapa boltanum á þennan hátt. Góð lið refsa fyrir það. Þetta eru atriði sem við verðum að vera búnir að laga áður en undankeppnin byrjar en vonandi höfum við lært mikið af þessum tveimur leikjum."
Aron lauk í kvöld löngu og ströngu tímabili og segja má að hann hafi ekki átt frí í tvö ár. „Jú, maður er orðinn dálítið stífur og fríið er kærkomið. Ég spilaði eina 52 leiki á tímabilinu og svo var lítið frí síðasta sumar vegna Evrópukeppninnar í Danmörku. Það verður virkilega gott að slaka aðeins á næstu vikurnar. Ég byrja á að fara til Englands og síðan eitthvað í sólina áður en ég skrepp heim til Akureyrar," sagði Aron Einar Gunnarsson.