Lagerbäck: Svona er ekki hægt að byrja

Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. mbl.is/Ómar

„Það voru mikil vonbrigði hve illa liðið byrjaði leikinn og fyrstu 15 mínútunar voru slæmar, en eftir það var ég nokkuð ánægður með frammistöðuna," sagði Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, eftir ósigurinn gegn Svíum, 3:2, í Gautaborg í kvöld.

Hann stýrði þar íslenska liðinu gegn löndum sínum sem komust í 2:0 á fyrstu 14 mínútunum. „Menn voru alltof passífir í byrjun og gekk illa að halda boltanum, og svona er ekki hægt að byrja leiki gegn sterkum mótherjum. En eftir þetta komst liðið betur inní leikinn og spilaði betri varnarleik eftir því sem á leið. Við reyndum að halda boltanum betur en í leiknum við Frakka og tókst það ágætlega," sagði Lagerbäck við mbl.is.

Hann tók undir það að mörk Svíanna hefðu verið heldur ódýr, sérstaklega það þriðja. „Já, þriðja markið var hrein gjöf og góð lið refsa fyrir svona mistök. Við áttum ágæta möguleika í leiknum á meðan staðan var 2:1 en þeir gerðu út um hann með þriðja markinu. Strákarnir eiga hinsvegar heiður skilinn fyrir að halda áfram og skora annað mark í uppbótartímanum, sem segir allt um hugarfarið. Svíar og Frakkar eru með virkilega sterk lið sem eru á leið á EM. Við skoruðum 4 mörk gegn þeim og veittum þeim harða keppni," sagði Lars Lagerbäck.

Nánar er rætt við hann í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert