Svíar lögðu Íslendinga 3:2

Svíþjóð sigraði Ísland, 3:2, í vináttulandsleik karla í knattspyrnu á Gamla Ullevi leikvanginum í Gautaborg í kvöld. Sömu tölur og í Frakklandi á sunnudagskvöldið.

Svíar fengu óskabyrjun því Zlatan Ibrahimovic skoraði á 2. mínútu og Ola Toivonen á 14. mínútu. Kolbeinn Sigþórsson minnkaði muninn í 2:1 á 27. mínútu og þannig var staðan í heilar 50 mínútur. Christian Wilhelmsson kom Svíum í 3:1 á 77. mínútu en Hallgrímur Jónasson minnkaði muninn í 3:2 í uppbótartíma.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90+3 - LEIK LOKIÐ. Skalli Hallgríms er það síðasta sem  gerist í leiknum því síðan er flautað af.

90+3 MARK - 3:2. Gylfi Þór Sigurðsson tekur hornspyrnu frá vinstri í lok uppbótartímans og sendir inná sænska markteiginn þar sem Hallgrímur Jónasson skorar með hörkuskalla. Hans þriðja mark í sex landsleikjum!

89. GULT - Rúrik Gíslason fær gula spjaldið fyrir brot á Wernbloom.

88. Bajrami leikur á varnarmann í vítateignum á hörkuskot sem Hannes gerir vel að verja, slær boltann í þverslána og afturfyrir.

87. Emir Bajrami með misheppnað skot að marki Íslands frá vítateig og talsvert framhjá.

86. Gylfi Þór Sigurðsson þrumar á mark Svía úr aukaspyrnu af um 30 m færi en yfir markið.

83. Hólmar Örn Eyjólfsson kemur inná fyrir Kára Árnason og leikur sinn fyrsta A-landsleik.

81. Mikael Antonsson kemur inná fyrir Jonas Olsson og Jóhann Berg Guðmundsson kemur inná fyrir Birki Bjarnason.

79. Birkir Bjarnason skallar framhjá marki Svía eftir aukaspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar.

77. MARK - 3:1. Svíar komast tveimur yfir á ný og þetta skrifast á Hannes Þór Halldórsson markvörð. Í þriðja sinn í leiknum á hann misheppnaða spyrnu frá marki og er refsað í þetta sinn. Sendir beint á Wernbloom sem gefur strax innfyrir vörnina á Christian Wilhelmsson sem þrumar boltanum í vinstra hornið.

73. Bajrami með hörkuskot af 25-30 m færi, í varnarmann og í horn.

69. Gylfi Þór Sigurðsson reynir skot af 25 metra færi en yfir sænska markið.

66. Eggert Gunnþór Jónsson kemur inná fyrir Helga Val Daníelsson. Hlutverkum snúið nákvæmlega við frá Frakkaleiknum.

66. Ola Toivonen með fastan skalla eftir hornspyrnu en í Kára Árnason í markteignum og íslenska liðið bætir hættunni frá.

63. Ola Toivonen skallar hættulítið og nokkuð framhjá marki Íslands eftir aukaspyrnu frá hægri. Fyrsta marktilraun Svía í seinni hálfleik.

62. Christian Wilhelmsson og Samuel Holmen koma inná fyrir Rasmus Elm og Zlatan Ibrahimovic.

60. Rúrik Gíslason með skot vinstra megin úr vítateignum eftir hornspyrnu Gylfa frá hægri, en yfir mark Svía.

60. Gylfi Þór Sigurðsson með skot rétt utan vítateigs, í varnarmann og horn.

58. Alfreð Finnbogason kemur inná fyrir Kolbein Sigþórsson. Alfreð sat á bekknum allan leikinn við Frakka en fær nú tækifæri síðasta hálftímann.

58. Aron Gunnarsson reynir skot að marki Svía af 25-30 m færi en framhjá.

52. GULT - Aron Einar Gunnarsson fyrirliði Íslands fær  fyrsta gula spjald leiksins fyrir að brjóta á Pontus Wernbloom á miðjum vellinum.

46. Seinni hálfleikur er hafinn.

46. Tobias Hysen kemur fyrir Markus Rosenberg og Pontus Wernbloom fyrir Kim Källström hjá Svíum, sem og Emir Bajrami fyrir Sebastian Larsson.

45. Hálfleikur og Svíar eru yfir, 2:1. Afar slæm byrjun fyrir íslenska liðið og staðan 2:0 eftir 14 mínútur en mark Kolbeins Sigþórssonar kom því inní leikinn á ný. Leikur liðsins hefur farið batnandi eftir því sem liðið hefur á hálfleikinn.

41. Aukaspyrna 28 metra frá marki Íslands en Kim Källström skýtur yfir markið. Aldrei hætta.

40. Markus Rosenberg skallar framhjá marki Íslands uppúr hornspyrnu. Þetta er fyrsta marktilraunin í leiknum sem ekki verður að marki!

36. Ísland fær sína  fyrstu hornspyrnu þegar Hallgrímur  Jónasson brunar upp hægra megin og varnarmaður nær að komast fyrir fyrirgjöfina og bjarga í horn. Ekki næst að skapa færi uppúr því - Svíarnir ná að skalla frá eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar.

34. Hættuleg skyndisókn Svía þar sem Zlatan Ibrahimovic sleppur upp hægri kantinn og sendir inní vítateiginn. Ragnar Sigurðsson gerir vel að komast fyrir sendinguna og bjargar í horn.

32. Það er oft sagt að þriðja markið hafi úrslitaáhrif í leikjum. Ísland skoraði þetta þriðja mark leiksins í Gautaborg og nú er allt  galopið fyrir vikið. Íslenska liðið spilar af vaxandi sjálfstrausti.

27. MARK - 2:1. Og nú er Ísland búið að svara fyrir sig. Kolbeinn Sigþórsson skorar sitt sjötta mark í 10 landsleikjum. Magnaður! Ari Freyr Skúlason með frábæran undirbúning, platar bakvörðinn á vinstri kantinum og sendir innað markteig þarsem Kolbeinn kastar sér fram og skallar boltann niður í hægra hornið.

21. Tvö markskot í leiknum til þessa og tvö mörk. Svíar stjórna leiknum en Ísland hefur þó náð nkkrum sóknum án þess að gera umtalsverðan usla.

14. MARK - 2:0. Svíar skora aftur og aftur er Zlatan Ibrahimovic erfiður. Hann platar Hallgrím Jónasson vinstra megin á vítateigslínunni og sendir síðan hárnákvæmt inná markteiginn fjær þar sem Ola Toivonen afgreiðir boltann auðveldlega í netið. Allt byrjaði þetta á slæmri sendingu útúr vörn Íslands þar sem Ragnar Sigurðsson sendi boltann beint á mótherja.

11. Ari Freyr Skúlason kemur Hannesi Þór Halldórssyni markverði í vandræði með slæmri sendingu til  baka. Hannes neyðist til að skalla boltann í horn því hann stefndi hreinlega í netið. Ekkert alvarlegt gerðist eftir hornspyrnuna.

10. Fín sókn Íslands og fyrirgjöf Birkis Bjarnasonar frá hægri en Kolbeinn Sigþórsson náði ekki til boltans innvið markteiginn. Íslenska liðið hefur aðeins komist inní leikinn eftir slæma  byrjun.

2. MARK - 1:0. Svíar voru ekki lengi að þessu! Sebastian Larsson kemst að endamörkum hægra megin og sendir fyrir markið - Zlatan Ibrahimovic tekur boltann viðstöðulaust á lofti á vítateig og hamrar hann í hægra hornið, útvið stöng. Óverjandi! Eftir aðeins 1 mínútu og 43 sekúndur.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Liðin eru komin út á völlinn glæsilega í Gautaborg. Lars Lagerbäck gerði tvær breytingar á byrjunarliði Íslands frá 2:3 ósigrinum í Frakklandi á sunnudag. Helgi Valur Daníelsson leikur á miðjunni í staðinn fyrir Eggert Gunnþór Jónsson og Ari Freyr Skúlason er vinstri bakvörður í staðinn fyrir Hjört Loga Valgarðsson. Þessar tvær breytingar voru einmitt gerðar á liðinu í seinni hálfleiknum í Valenciennes.

Lið Íslands: Hannes Þór Halldórsson - Hallgrímur Jónasson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Ari Freyr Skúlason - Rúrik Gíslason, Aron Einar Gunnarsson, Helgi Valur Daníelsson, Gylfi Þór Sigurðsson - Birkir Bjarnason, Kolbeinn Sigþórsson.
Varamenn: Gunnleifur Gunnleifsson (M), Hjörtur Logi Valgarðsson, Eggert Gunnþór  Jónsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Eyjólfur Héðinsson, Alfreð Finnbogason, Stefán Logi Magnússon (M).

Lið Svíþjóðar: Andreas Isaksson - Andreas Granqvist, Olof Mellberg, Jonas Olsson, Behrang Safari - Sebastian Larsson, Rasmus Elm, Zlatan Ibrahimovic, Kim Källström, Ola Toivonen - Markus Rosenberg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert