Samið um stúku á Ísafirði

Grafið hefur verið fyrir stúkubyggingunni, eins og sjá má á …
Grafið hefur verið fyrir stúkubyggingunni, eins og sjá má á myndinni. Ljósmynd/BB

Skrifað hefur verið undir samning um eignarhald á nýrri stúku við Torfnesvöll á Ísafirði, en áætlað er að hún rísi seinni hluta sumars og verði tilbúin áður en þessu keppnistímabili í knattspyrnunni lýkur. Frá þessu er greint á vef Bæjarins besta í dag.

Lið BÍ/Bolungarvíkur leikur í 1. deild og er með frest til 15. júlí til að reisa stúku, til að standast kröfur leyfiskerfis Knattspyrnusambands Íslands. Undanþága fæst þó ef félagið getur sýnt fram á að stúkubyggingin sé í ákveðnu ferli og samkvæmt BB er það raunin.

Það er eignarhaldsfélagið ST2012 sem reisir stúkuna en hún á að rúma 540 áhorfendur. Fulltrúar félagsins, Héraðssambands Vestfirðinga og Ísafjarðarbæjar skrifuðu undir samning um eignarhaldið en gert er ráð fyrir að Ísafjarðarbær eignist mannvirkið þegar byggingu fyrsta áfanga er lokið.

Í frétt BB kemur fram að grafið hafi verið fyrir stúkunni í síðasta mánuði en engar framkvæmdir átt sér stað í nokkurn tíma þar sem byggingarleyfið hafi enn ekki fengist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert