Þróttur vann sinn fyrsta sigur gegn KA

Erlingur Jack fór á punktinn en brenndi af.
Erlingur Jack fór á punktinn en brenndi af. Árni Sæberg

Þróttur R. vann loksins leik í 1. deildinni í dag er liðið lagði KA á Valbjarnarvelli, 2:1. Bikarhetjan Karl Brynjar Björnsson skoraði sigurmarkið með skalla í síðari hálfleik.

Þróttarar voru miklu betri í leiknum og komust yfir, 1:0, með marki Andra Gíslasonar eftir fimmtán mínútna leik. KA jafnaði gegn gangi leiksins í seinni hálfleik.

Erlingur Jack brenndi af vítaspyrnu fyrir Þrótt í seinni hálfleik en það var Karl Brynjar Björnsson sem tryggði heimamönnum öll stigin þrjú með skallamarki á 72. mínútu.

Ólafsvíkingar komu sér á toppinn með stórsigri á BÍ/Bolungarvík, 4:0. Fjölnir getur þó komist aftur á toppinn nái liðið stigi á Egilsstöðum á eftir. Djúpmenn eru nú eina liðið sem ekki hefur unnið leik í 1. deildinni.

Þá bjargaði Ben J Everson stigi fyrir nýliða Tindastóls gegn Leikni í Breiðholtinu en hann jafnaði metin úr vítaspyrnu í uppbótartíma eftir að Ólafur Hrannar Kristjánsson hafði komið Leikni yfir í fyrri hálfleik. Lokatölur þar, 1:1.

Leiknir R. - Tindastóll 1:1 (Leikskýrsla)
(Ólafur Hrannar Kristjánsson 41. – Ben J Everson 90.+4, víti)
Þróttur R. - KA 2:1 (Leikskýrsla)
(Andri Gíslason 16., Karl Brynjar Björnsson 72. – Davíð Rúnar Bjarnason 64. )
Víkingur Ó. - BÍ/Bolungarvík 4:0 (Leikskýrsla)
(Arnar Sveinn Geirsson 25., Guðmundur Magnússon 70., Alfreð Már Hjaltalín 82.) 

15.56 Leiknum er lokið í Breiðholti með dramatísku jafntefli.

15.55 MARK Í BREIÐHOLTI! Staðan er 1:1. Ben J Everson er að bjarga stigi fyrir nýliðana með marki úr vítaspyrnu á fjórðu mínútu í uppbótartíma.

15.55 Leikjunum er lokið í Laugardal og í Ólafsvík.

15.40 MARK Í ÓLAFSVÍK! Staan er 4:0. Ólafsvíkingar eru að valta yfir BÍ/Bolungarvík fyrir vestan. Alfreð Már Hjaltalín bætir við fjórða marki Víkings Ó. á 82. mínútu.

15.31 MARK Í LAUGARDAL! Staðan er 2:1. Þróttur kemst aftur yfir sem er verðskuldað. Bikarhetjan Karl Brynjar Björnsson skorar með skalla eftir fyrirgjöf frá vinstri á 72. mínútu. Þróttur gæti verið að fara vinna sinn fyrsta leik í deildinni.

15.30 MARK Í ÓLAFSVÍK! Staðan er 3:0. Djúpmenn eru ekki að fara vinna sinn fyrsta leik í dag. Guðmundur Magnússon bætir við þriðja marki Ólafsvíkinga á 70. mínútu.

15.24 MARK Í LAUGARDAL! Staðan er 1:1. Þvert gegn gangi leiksins eru gestirnir úr KA búnir að jafna. Davíð Rúnar Bjarnason skorar eftir harða sókn KA en fram að þessu hefur Þróttur gjörsamlega átt leikinn. Davíð skorar á 64. mínútu.

15.20 MARK Í ÓLAFSVÍK! Staðan er 2:0. Heimamenn bæta við og ekkert bendir til þess að Djúpmenn vinni sinn fyrsta sigur í dag. Ekki hefur fengist staðfest hver skoraði annað markið en það kom á 57. mínútu.

15.11 Þróttarar fengu kjörið tækifæri til að bæta við forustuna þegar Guðmundur Ársæll dæmdi vítaspyrnu á gestina. Erlingur Jack tók spyrnuna en skaut framhjá.

15.05 Seinni hálfleikirnir eru farnir af stað.

14.50 Kominn er hálfleikur í leikjunum þremur. Það stefnir allt í þrjá heimasigra ef ekkert breytist.

14.47 MARK Í BREIÐHOLTI! Staðan er 1:0. Leiknismenn eru komnir yfir gegn nýliðunum. Ólafur Hrannar Kristjánsson skorar á 41. mínútu.

14.43 Leikurinn í Laugardal er frábær skemmtun. Liðin skiptast á að sækja og eru í raun klaufar að vera ekki búin að skora fleiri mörk. Bæði lið hafa fengið góð færi. Sóknarlotur Þróttara eru þó öllu markvissari.

14.28 MARK Í ÓLAFSVÍK! Staðan er 1:0. Heimamenn eru komnir yfir fyrir vestan. Valsarinn fyrrverandi Arnar Sveinn Geirsson skorar fyrir Víkinga á 25. mínútu.

14.19 MARK Í LAUGARDAL! Staðan er 1:0. Þróttarar taka verðskuldaða forustu gegn KA. Andri Gíslason fylgir eftir skoti sem Sandor ver í marki KA og kemur heimamönnum yfir, 1:0, á 16. mínútu.

14.02 Leikirnir eru hafnir.

Markaskorarar í Ólafsvík og Breiðholti eru fengnir frá urslit.net.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert