Eiður Smári Guðjohnsen, landsliðsmaður í knattspyrnu, vinnur að því að ná samkomulagi við AEK Aþenu um að fara frá félaginu í sumar en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við gríska félagið.
Samkvæmt fréttum í fjölda grískra fjölmiðla sendi Eiður bréf til AEK í dag þar sem hann fer fram á að fá 200.000 evrur, jafnvirði rúmlega 30 milljóna íslenskra króna, sem hann á inni hjá félaginu greiddar fyrir 31. júlí. Þessi krafa Eiðs er sögð hafa komið forráðamönnum AEK í opna skjöldu en þeir höfðu búist við að greiða lægri upphæð til að losa Eið undan samningi.
Eiður ku eiga inni 1,2 milljónir evra í laun hjá AEK og er sagður ætla með málið til FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins, takist ekki samningar við gríska félagið.