Þeir Hjörtur Hermannsson og Oliver Sigurjónsson hafa verið valdir í 22 manna úrvalslið sem sérstök tækninefnd valdi að lokinni úrslitakeppni Evrópumóts U17 ára landsliða í knattspyrnu sem fram fór í Slóveníu í vor.
Hjörtur, sem var fyrirliði íslenska liðsins, var valinn einn af sex bestu varnarmönnum mótsins og Oliver var valinn einn af átta bestu miðjumönnunum. Hjörtur leikur með PSV Eindhoven í Hollandi og Oliver með AGF í Danmörku.
Ísland gerði jafntefli við Frakkland en tapaði fyrir Þýskalandi og Georgíu og hafnaði í 7.-8. sæti keppninnar. Liðið var nálægt sæti í fjögurra liða úrslitum en tapaði hreinum úrslitaleik gegn Georgíu 0:1 og var þar sjö mínútum frá því að komast í hóp fjögurra bestu í Evrópu.