Knattspyrnumaðurinn Bjarni Þór Viðarsson skrifaði í gærkvöld undir fjögurra ára samning við danska úrvalsdeildarfélagið Silkeborg og er því samningsbundinn því til ársins 2016.
Bjarni fékk sig lausan undan samningi við Mechelen í Belgíu á miðvikudaginn og hélt þá beint til Danmerkur til að ganga frá málum við Silkeborg.
„Ég er gífurlega ánægður með að þetta skuli vera í höfn og ég sé laus frá Mechelen eftir tvö erfið og leiðinleg ár. Nú fæ ég tækifæri til að koma ferlinum í gang á ný og ætla mér að nýta það,“ sagði Bjarni við Morgunblaðið eftir að hann skrifaði undir.
Sjá nánar um þetta mál í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.