Sænska meistaraliðið Helsingborg hefur nú efni á að kaupa Alfreð Finnbogason, landsliðsmann í knattspyrnu, eftir að hafa slegið út pólska liðið Slask Wroclaw samtals 6:1 í forkeppni Meistaradeildar Evrópu þar sem Alfreð lagði upp fimm mörk og skoraði eitt.
Helsingborg vann fyrri leik liðanna í Póllandi 3:0 og Alfreð lagði svo upp öll mörkin í 3:1-sigri í Svíþjóð í gærkvöldi.
Helsingborg er nú komið í sérstakt umspil um sæti í sjálfri riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og kemur í ljós á morgun hver andstæðingurinn þar verður. Falli Alfreð og félagar úr leik þar fara þeir engu að síður í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og því var sigurinn í gær afar dýrmætur. Reyndar er alveg hægt að upplýsa nákvæmlega hversu dýrmætur því Helsingborg fær jafnvirði um 411 milljóna króna jafnvel þótt liðið tapi í umspilinu, og enn hærri upphæð fari liðið áfram í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.