Aron Einar Gunnarsson mun bera fyrirliðabandið hjá íslenska landsliðinu í knattspyrnu þegar það mætir Færeyingum í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum annað kvöld. Ljóst er að Akureyringurinn öflugi verður fyrirliði í leikjum liðsins í undankeppni HM en riðlakeppnin hefst í næsta mánuði.
„Það fylgir því ákveðið stolt að bera fyrirliðabandið og ég er ánægður með það. Ég hef verið að vinna að því að fá það og að hafa fengið það svona ungur er glæsilegt. Ég er stoltur af því,“ sagði Aron við fréttamenn í höfuðstöðvum KSÍ í dag.
Aron, sem leikur með Cardiff í ensku B-deildinni, var fyrirliði í leikjunum á móti Svíum og Frökkum í vor. Hann er 23 ára gamall og leikur á morgun sinn 29. landsleik.