Kolbeinn Sigþórsson skoraði bæði mörk Íslands þegar það vann Færeyjar, 2:0, í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum í kvöld. Þetta er fyrsti sigur Svíans Lars Lagerbäck sem þjálfari íslenska liðsins.
Leikurinn byrjaði afar rólega og það hafði afar lítið gerst fram að markinu sem Kolbeinn skoraði á 30. mínútu.
Jóhann Berg Guðmundsson gaf boltann fyrir markið en hann fór af varnarmanni gestanna og hátt upp í loftið. Kolbeinn gerði vel í að stíga úr varnarmanninn sinn í teignum og skoraði með viðstöðulausu skoti, 1:0.
Eftir markið vaknaði íslenska liðið og fór að spila ágætis fótbolta það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en staðan í hálfleik, 1:0.
Seinni hálfleikur byrjaði fjörlega og átti Jóhann Berg Guðmundsson skot í samskeytin af stuttu færi. Af slánni barst boltinn á Birki Má Sævarsson sem þrumaði á markið en Gunnar Nielsen varði í horn.
Það var fátt um fína drætti hjá íslenska liðinu eftir þetta og voru Færeyingarnir nær því að jafna en íslensku strákarnir að bæta við.
Jóan Edmundsson átti skot í stöng úr dauðafæri í teignum fyrir Færeyjar og þá skaut Finnur Justiniussen framhjá af markteig. Íslendingar heppnir þar.
Eiður Smári Guðjohnssen og Grétar Rafn Steinsson spiluðu báðir tuttugu mínútur og minntu á sig.
Grétar lagði einmitt upp seinna mark Íslands á 90. mínútu með góðri fyrirgjöf frá hægri en Kolbeinn Sigþórsson kláraði færið sitt vel. Hann er búinn að skora 8 mörk í 11 landsleikjum. Lokatölur, 2:0.
Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið en myndbandsviðtöl koma inn á mbl.is seinna í kvöld.
Lið Íslands: (4-4-2) Mark: Gunnleifur Gunnleifsson. Vörn: Birkir Már Sævarsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Bjarni Ólafur Eiríksson. Miðja: Rúrik Gíslason, Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson. Sókn: Birkir Bjarnason, Kolbeinn Sigþórsson.
Varamenn: Hannes Þór Halldórsson, Ingvar Jónsson, Indriði Sigurðsson, Eggert Gunnþór Jónsson, Grétar Rafn Steinsson, Helgi Valur Daníelsson, Alfreð Finnbogason, Arnór Smárason, Eiður Smári Guðjohnsen, Ari Freyr Skúlason.
Lið Færeyja: (4-3-3) Mark: Jákup Mikkelsen. Vörn: Jónas Þór Næs, Rógvi Baldvinsson, Odmar Færø, Pól Jóhannus Justinussen. Miðja: Fróði Benjaminsen, Hallur Hansson, Christian Lamhauge Holst. Sókn: Daniel Udsen, Símun Edmundsson, Símun Samuelsen.
Varamenn: Gunnar Nielsen, Kristian Joenen, Finnur Justiniussen, Bogi Lökin, Hjallgrím Eltör, René Joensen, Pætur Dam Jacobsen, Johan T. Davidsen.