Kolbeinn skoraði tvö í fyrsta sigri Lagerbäcks

Kolbeinn Sigþórsson í baráttu við færeyskan varnarmann á Laugardalsvellinum í …
Kolbeinn Sigþórsson í baráttu við færeyskan varnarmann á Laugardalsvellinum í kvöld. mbl.is/Eggert

Kolbeinn Sigþórsson skoraði bæði mörk Íslands þegar það vann Færeyjar, 2:0, í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum í kvöld. Þetta er fyrsti sigur Svíans Lars Lagerbäck sem þjálfari íslenska liðsins.

Leikurinn byrjaði afar rólega og það hafði afar lítið gerst fram að markinu sem Kolbeinn skoraði á 30. mínútu.

Jóhann Berg Guðmundsson gaf boltann fyrir markið en hann fór af varnarmanni gestanna og hátt upp í loftið. Kolbeinn gerði vel í að stíga úr varnarmanninn sinn í teignum og skoraði með viðstöðulausu skoti, 1:0.

Eftir markið vaknaði íslenska liðið og fór að spila ágætis fótbolta það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en staðan í hálfleik, 1:0.

Seinni hálfleikur byrjaði fjörlega og átti Jóhann Berg Guðmundsson skot í samskeytin af stuttu færi. Af slánni barst boltinn á Birki Má Sævarsson sem þrumaði á markið en Gunnar Nielsen varði í horn.

Það var fátt um fína drætti hjá íslenska liðinu eftir þetta og voru Færeyingarnir nær því að jafna en íslensku strákarnir að bæta við.

Jóan Edmundsson átti skot í stöng úr dauðafæri í teignum fyrir Færeyjar og þá skaut Finnur Justiniussen framhjá af markteig. Íslendingar heppnir þar.

Eiður Smári Guðjohnssen og Grétar Rafn Steinsson spiluðu báðir tuttugu mínútur og minntu á sig.

Grétar lagði einmitt upp seinna mark Íslands á 90. mínútu með góðri fyrirgjöf frá hægri en Kolbeinn Sigþórsson kláraði færið sitt vel. Hann er búinn að skora 8 mörk í 11 landsleikjum. Lokatölur, 2:0.

Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið en myndbandsviðtöl koma inn á mbl.is seinna í kvöld.

Lið Íslands: (4-4-2) Mark: Gunnleifur Gunnleifsson. Vörn: Birkir Már Sævarsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Bjarni Ólafur Eiríksson. Miðja: Rúrik Gíslason, Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson. Sókn: Birkir Bjarnason, Kolbeinn Sigþórsson.
Varamenn: Hannes Þór Halldórsson, Ingvar Jónsson, Indriði Sigurðsson, Eggert Gunnþór Jónsson, Grétar Rafn Steinsson, Helgi Valur Daníelsson, Alfreð Finnbogason, Arnór Smárason, Eiður Smári Guðjohnsen, Ari Freyr Skúlason. 

Lið Færeyja: (4-3-3) Mark: Jákup Mikkelsen. Vörn: Jónas Þór Næs, Rógvi Baldvinsson, Odmar Færø, Pól Jóhannus Justinussen. Miðja: Fróði Benjaminsen, Hallur Hansson, Christian Lamhauge Holst. Sókn: Daniel Udsen, Símun Edmundsson, Símun Samuelsen.
Varamenn: Gunnar Nielsen, Kristian Joenen, Finnur Justiniussen, Bogi Lökin, Hjallgrím Eltör, René Joensen, Pætur Dam Jacobsen, Johan T. Davidsen.


Ísland 2:0 Færeyjar opna loka
90. mín. Leikurinn er að fjara út. Ísland er að landa sínum fyrsta sigri undir stjórn Lars Lagerbäck en frammistaðan hefur þó ekki verið neitt sérstök.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert