Íslendingarnir í liði Halmstad, Kristinn Steindórsson og Guðjón Baldvinsson, komu að öllum þremur mörkum liðsins í 3:0 sigri á Umeå í kvöld í sænsku 1. deildinni í knattspyrnu.
Kristinn kom Halmstad yfir á 40. mínútu eftir sendingu Guðjóns sem skoraði svo annað mark tveimur mínútum síðar. Guðjón lagði svo upp þriðja markið fyrir Antonio Rojas.
Halmstad er í baráttu um að komast upp í úrvalsdeildina. Liðið er í 3. sæti, fjórum stigum á eftir Brommapojkarna en átta stigum á undan næstu liðum. Tvö efstu liðin fara beint upp en liðið í 3. sæti fer í umspil við lið úr úrvalsdeildinni.
Ängelholm, lið Heiðars Geirs Júlíussonar, gerði 2:2 jafntefli við Falkenberg á útivelli. Heiðar er frá keppni vegna meiðsla en Ängelholm er eitt þeirra liða sem eru átta stigum á eftir Halmstad.