Indriði Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Viking, verður frá æfingum og keppni næstu 6-8 vikurnar að því er fram kemur á vef norska liðsins í dag.
Indriði meiddist á hné í viðureign Viking og Rosenborg um síðustu helgi. Hann náði þó að klára leikinn en kenndi sér meins eftir hann og nú er komið í ljós að hann verður frá knattspyrnuiðkun næstu vikurnar.
Þetta þýðir að hann missir af leikjum íslenska landsliðsins gegn Norðmönnum og Kýpur í undankeppni HM sem fram fara 7. og 11. september.