Aron Jóhannsson, framherjinn ungi hjá AGF, er orðinn markahæstur í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir að hann gerði tvö marka liðsins í 4:0-útisigri á Bjarna Þór Viðarssyni og félögum í Silkeborg í dag.
Aron gerði eitt mark í fyrstu sex leikjum AGF en hefur nú gert sex mörk í síðustu tveimur. Hann var nálægt þrennunni í dag því annað mark Ársósaliðsins í leiknum var sjálfsmark eftir að Aron hafði stýrt boltanum að marki og hann fór í varnarmann og inn.
Aron er kominn með sjö mörk samtals, einu meira en Joshua John, leikmaður meistaraliðs Nordsjælland, en þar á eftir koma Andreas Cornelius og Cesar Santin, leikmenn FC Köbenhavn, með fimm mörk hvor.
AGF hefur gert 13 mörk í deildinni og Aron er því búinn að skora meira en helming marka liðsins til þessa.
Myndskeið úr leik Silkeborg og AGF.