Rúnar vill sjá Guðjón í landsliðinu

Rúnar Kristinsson þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson þjálfari KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er óhætt að segja að skipst hafi á skin og skúrir hjá karlalandsliðinu í knattspyrnu á síðustu dögum.

Á föstudagskvöldið unnu Íslendingar sigur á Norðmönnum, þann fyrsta á frændum vorum í 25 ár, og ansi margir fóru á flug eftir þann góðan sigur en í fyrrakvöld mátti svo íslenska liðið sætta sig við fyrsta ósigurinn á fótboltavellinum gegn Kýpverjum. Þrjú stig eru því uppskeran í fyrstu tveimur leikjunum í undankeppni HM en í næsta mánuði sækja Íslendingar lið Albana heim og taka síðan á móti Svisslendingum.

Morgunblaðið fékk Rúnar Kristinsson, þjálfara Íslands- og bikarmeistara KR og leikjahæsta leikmann landsliðsins frá upphafi, til að velta vöngum yfir íslenska landsliðinu en frá því Rúnar lék 104. landsleik sinn árið 2004 hefur hann fylgst vel með gangi mála hjá landsliðinu.

„Það sem maður hefur séð til liðsins þangað til í gær (fyrrakvöld) hefur verið mjög jákvætt og gott. Það hafa verið jákvæðar breytingar á leikskipulagi, skipulagður varnarleikur og oft og tíðum ágætt spil hjá liðinu. Hingað til hef ég verið hrifinn en svo gengu hlutirnir einfaldlega ekki upp á móti Kýpur og þetta var ekki okkar dagur. Við byrjuðum að pressa Kýpverjana framarlega sem mér fannst ganga illa.

Leikmenn Kýpur eru eins og við mátti búast flinkir í fótboltanum, geta haldið boltanum vel og spilað sín á milli. Af því að pressan hjá íslenska liðinu var ekki eins góð og hún þurfti að vera náðu Kýpverjarnir upp góðu spili og oft og tíðum urðu hlaup okkar manna til einskis. Þá þreytast menn fljótt af því þeir ná ekki boltanum,“ sagði Rúnar, sem segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að hann vilji sjá Guðjón Baldvinsson, fyrrum lærisvein sinn hjá KR og nú leikmann Halmstad í Svíþjóð, fá tækifæri með landsliðinu.

Sjá allt viðtalið við Rúnar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert