„Maður áttar sig ekki á þessu ennþá, þetta er ótrúlega góð tilfinning,“ sagði Ejub Purisevic, þjálfari Víkings frá Ólafsvík, en undir hans stjórn er liðið búið að tryggja sér sæti í efstu deild á næsta tímabili, og það í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Liðinu dugði jafntefli á móti KA þegar liðin mættust fyrir norðan í gær, en Ólsarar tryggðu sæti sitt með sæmd og unnu stórsigur, 4:0.
„Við vissum fyrir leikinn að okkur dygði jafntefli en ég kom hingað norður til þess að vinna. Ég set aldrei leik upp til þess að halda jafntefli. Þetta er búið að vera gott sumar hjá okkur, við spiluðum marga leiki vel en um mitt tímabil lentum við í smá basli hvað varðar meiðsli. Við komum hins vegar vel til baka í undanförnum leikjum þar sem við sýndum góða fótfestu og héldum haus til enda,“ sagði Ejub. Mikil stemning var á Akureyrarvelli en tæplega 100 stuðningsmenn Víkings fjölmenntu norður og settu mikinn svip á bæjarlífið fyrir leikinn.
Sjá umfjöllun um leikinn í heild í 8-síðna íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.