Aron hækkar í verði og fær betri samning

Aron Jóhannsson í leik með AGF.
Aron Jóhannsson í leik með AGF. Ljósmynd/www.agf.dk

Markheppni Arons Jóhannssonar fyrir danska knattspyrnuliðið AGF virðist ætla að skila honum betri samningi fljótt og vel, miðað við það sem íþróttastjóri félagsins, Brian Steen Nielsen segir.

„Ég er nýbúinn að hafa samband við umboðsmann Arons og segja honum að ég sé samþykkur því að hann hækki í launum. Við höfum það alltaf þannig hér í AGF að góðir leikmenn fá það sem þeir verðsklda. Við erum komnir í viðræður um framlengingu á samningi og ég vona að það komi fljótlega eitthvað út úr því,“ segir Nielsen við Sporten.dk.

Aron er markahæstur í dönsku úrvalsdeildinni með 9 mörk í 9 leikjum en þar af hefur hann gert 8 mörk í síðustu þremur leikjunum. Ljóst er að með þeim hefur hann hækkað verðgildi sitt verulega.

„Leikmaður sem skorar svona mörg mörk verður alltaf mikils virði ef hann er seldur. Hann hefur tekið stórkostlegum framförum og menn skulu muna að við fundum hann í næstefstu deild á Íslandi. Hann hefur því gert það gott,“ segir Nielsen.

„Ég læt umboðsmanninn minn um samningaviðræðurnar. Ég reyni bara að einbeita mér að fótboltanum og skora mörk. En ég er mjög ánægður hér,“ segir Aron við Sporten.dk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert