Bandaríska MLS-liðið Seattle Sounders hafði mikinn áhuga á að semja við Eið Smára Guðjohnsen en vegna launaþaksins í deildinni gat liðið aðeins samið við einn af þeim þremur leikmönnum sem voru á reynslu hjá liðinu undir lok félagaskiptagluggans.
Í stað Eiðs samdi Seattle við markvörðinn Marcus Hahnemann sem lék áður með Reading og Úlfunum í ensku úrvalsdeildinni.
„Við viljum alltaf vera með eins sterkt lið og hægt er en það er launaþak á þessari deild. Það var aðeins einn samningur sem við gátum gert á endanum og við erum ánægðir með að hafa samið við Marcus,“ segir Adrian Hanauer, framkvæmdastjóri Seattle.
„Koma Marcusar eykur breiddina í liðinu og gerir gott lið betra. Við munum samt vera áfram í sambandi við George [Ogarau] og Eið. Maður veit aldrei hvað gerist í framtíðinni.“
Seattle reyndi hvað það gat að hagræða sínum málum til að semja við alla þrjá leikmennina en á endanum gekk það ekki upp. Hvað Eið varðar tengdist það einfaldlega peningamálum.
„Það er augljóslega ekki mikið eftir af tímabilinu. Það var vandamálið sem við lentum í með Eið og George. Við höfðum afskaplega lítinn tíma, áttum lítinn pening og gátum ekki hagrætt miklu. Marcus býr í Seattle og samningurinn við hann kláraðist á síðustu mínútu,“ segir Hanauer.