Glæsimark Ara ekki nóg - Helgi á toppinn

Ari Freyr Skúlason er fyrirliði Sundsvall.
Ari Freyr Skúlason er fyrirliði Sundsvall. www.http://gifsundsvall.se

Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í knattspyrnu og fyrirliði sænska úrvalsdeildarliðsins Sundsvall, skoraði stórglæsilegt mark fyrir liðið í dag þegar það tók á móti Helga Val Daníelssyni og samherjum í AIK.

Ari jafnaði metin á 32. mínútu, 1:1, með miklum þrumufleyg af 25 metra færi, beint í markvinkilinn hjá AIK. Lið hans komst yfir í seinni hálfleik en varð að sætta sig við ósigur að lokum, 2:3.

Þeir Ari Freyr og Helgi Valur spiluðu allan tímann með liðum sínum en Jón Guðni Fjóluson sat á varamannabekk Sundsvall allan tímann. Sundsvall er nú í umspilssæti, því þriðja neðsta, þegar fimm umferðum er ólokið, með 26 stig. Örebro og GAIS eru hins vegar langneðst og falla örugglega bæði. Sundsvall er í slag við nokkur önnur lið um að sleppa  við umspilið.

Helgi og félagar tylltu sér hins vegar á toppinn í deildinni með sigrinum. AIK er með 47 stig en Häcken og Elfsborg eru með 46 og Malmö 43. Þrjú síðarnefndu liðin eiga öll eftir að spila í 25. umferðinni svo staðan getur breyst frekar í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert