KA tilkynnti á blaðamannafundi rétt í þessu að Bjarni Jóhannsson muni stýra meistaraflokki karla í knattspyrnu hjá félaginu í 1. deildinni næsta sumar.
Bjarni sem lét af störfum hjá Stjörnunni á dögunum skrifaði undir þriggja ára samning samkvæmt frétt á heimasíðu félagsins. Hann tekur við af Gunnlaugi Jónssyni sem hefur þjálfað KA undanfarin tvö ár en liðið hafnaði í fjórða sæti 1. deildarinnar á nýliðnu tímabili.
Bjarni hefur stýrt Stjörnunni með góðum árangri undanfarin fimm ár. Hann tók við liðinu í 1. deild árið 2008 og hefur það síðan leikið í efstu deild undanfarin fjögur ár, varð í fjórða sæti í fyrra, sem er besti árangur félagsins frá upphafi, og í ár varð liðið í fimmta sæti og lék til úrslita í bikarkeppninni.